Um verkefnin
Endalaus gleði!
-syngjum saman-
Verkefnið „Ný íslensk tónlist fyrir barnakóra” hófst sumarið 2016 með rannsóknarvinnu þar sem tekin voru viðtöl við reynda barnakórstjóra á Íslandi. Þá var reynt að kortleggja hvað vantaði í flóruna af barnalögum og hvers konar lög virtust virka vel sérstaklega fyrir 6-10 ára börn. Að því loknu hafði ég samband við nokkra textahöfunda og bað þá um að skrifa texta sem ég samdi svo ný lög við. Textahöfundar sem eiga texta í bókinni eru Agnes Wild, Íris Hólm, Heiða Árnadóttir, Hildur Eir Bolladóttir og Jón Pálsson, auk þess á ég nokkra texta. Lögin voru æfð jafnóðum og þau urðu til af Barnakór Guðríðarkirkju, Barnakór Fríkirkjunnar í Reykjavík og af Litrófinu, barnakór við Fella- og Hólakirkju og voru þannig prufukeyrð. Vorið 2017 héldu Barnakór Guðríðarkirkju og Barnakór Fríkirkjunnar veglega tónleika með undirleik hljómsveitar og undir stjórn Ásbjargar og Álfheiðar Björgvinsdóttur. Tónleikarnir voru hljóðritaðir og hægt er að nálgast þær upptökur hér á heimasíðunni. Mér finnst mikilvægt að hægt sé að hlusta á lögin til að þau kveikji í manni. Þar er einnig að finna myndbönd með hreyfingum við þau lög þar sem það á við. Til að viðhalda áhuga barnanna á söngnum tel ég mikilvægt að það sé endurnýjun og þróun í starfinu og á efninu sem þeim er kennt. Það er meginástæða þess að ég lagði af stað í þetta ferðalag.
Verkefnið var styrkt af Menningarsjóði VÍB, Tónlistarsjóði, Hljóðritasjóði og Nótnasjóði.
Tónlistin er þín
-sönglög fyrir börn-
Fyrstu barnalögin mín urðu til haustið 2017 sem hluti af M.Ed.Art. lokaverkefni mínu við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Fljótlega urðu sönglögin fleiri og þá kom upp hugmynd um að gefa þau út í söngbók. Megináhersla verkefnisins við LHÍ er söngur barna og þáttur hans í samfélagi þeirra, hvort sem er innan eða utan skólakerfisins. Nauðsynlegt er að standa vörð um söng barna og mikilvægt að foreldrar, kennarar, skólastjórnendur og aðrir sem bera ábyrgð á uppeldi og menntun barna, haldi merkjum söngsins vel á lofti og hvetji tónskáld enn frekar til þess að semja sönglög fyrir börn. Það er mér mikilvægt að sönglögin mín séu börnum aðgengileg og auðskiljanleg og vona ég að þau vekji vellíðan, útrás og gleði meðal barnanna sem syngja þau. Einnig er nauðsynlegt að tónlistarkennarar geti tileinkað sér þau auðveldlega. Ég hef nýtt lögin töluvert í tónlistarkennslu barna, hvort sem er í grunnskólum, tónlistarskólum eða kirkjum. Sönglögin eru hugsuð fyrir börn á aldrinum 6 -10 ára þótt vissulega henti sum þeirra enn yngri eða eldri börnum. Öll má syngja einradda þó sum skarti einni eða fleiri röddum til viðbótarr. Í maí 2024 komu Skólakór Kársness og Kór Hamraskóla saman í Salnum í Kópavogi og hljóðrituðu lögin undir stjórn okkar Álfheiðar Björgvinsdóttur. Örn Ýmir Arason lék á kontrabassa og Gunnar Gunnarsson á píanó. Þorgrímur Þorsteinsson sá um hljóðritun.
Verkefnið var styrkt af Nótnasjóði Stefs, og Tónskáldasjóði RÚV og Stefs, Menningarsjóði FÍH og Tónlistarsjóði.